Víkingur hefur vissulega unnið Leiknismenn í B-deildinni en þegar kemur að leikjum í úrvalsdeildinni þá hafa þeir aldrei landað sigri á móti Leikni.
Liðin hafa mæst þrisvar sinnum í efstu deild þar á meðal í Efra-Breiðholtinu fyrr í sumar. Leiknismenn unnu þá 2-1 sigur eftir að hafa komist í 2-0 í leiknum.
Markaskorari Leiknismanna, Sævar Atli Magnússon, verður þó ekki á svæðinu á morgun því hann er nú leikmaður danska félagsins Lyngby.
Sævar skoraði mörk Leiknismanna á 34. og 61. mínútu en Nikolaj Andreas Hansen minnkaði muninn fyrir Víkinga tólf mínútum fyrir leikslok.
Liðin mættust líka tvisvar sinnum í Pepsi deildinni sumarið 2015. Leiknir vann þá 2-0 sigur í heimaleiknum í maí en liðin gerðu síðan 1-1 jafntefli í Víkinni í ágúst.
Mörk Leiknismanna í heimasigrinum skoruðu Sindri Björnsson og Kamerúnmaðurinn Charley Roussel Fomen.
Í jafnteflisleiknum skoraði Halldór Smári Sigurðsson sjálfsmark á 87. mínútu en Ívar Örn Jónsson jafnaði metin fyrir Víkinga úr vítaspyrnu á fjórðu mínútu í uppbótartíma.
Víkingar hafa því aðeins fengið eitt stig af níu mögulegum út úr innbyrðis leikjum sínum á móti Leikni Reykjavík í úrvalsdeildinni en Leiknismenn hafa á móti haft sjö stig upp úr krafsinu.
Víkingar hafa því ekki aðeins aldrei náð að vinna Leiknismenn í úrvalsdeild karla því þeir hafa aldrei komist yfir í leikjum liðanna. Leiknismenn hafa aftur á móti verið yfir í samtals 120 mínútur í leikjum sínum á móti Víkingum.
