Um klukkan 21.30 barst lögreglu tilkynning um konu sem var sögð liggja ofurölvi og sofandi í aftursæti bifreiðar með hurðina opna. Var konan vakin en hún neitaði að gefa upp persónuupplýsingar og sagðist ekkert kannast við bifreiðina. Konan var því færð á lögreglustöð, þar sem hún gaf að lokum upp nafn og kennitölu og var þá látin laus.
Um kl. 20 var bifreið ekið á mann á rafmagnshlaupahjóli í Hlíðahverfi en engin slys urðu á fólki. Bifreiðin var hins vegar töluvert skemmd og hjólið að líkindum líka, að sögn lögreglu.
Þá var bifreið stöðvuð við hraðamælingar á Bústaðavegi rétt eftir miðnætti en henni var ekið á 108 km/klst þar sem hámarkshraðinn er 60 km/klst. Ökumaðurinn er grunaður um ölvunarakstur.