Tólf stig hafa verið dregin af Derby og liðið situr því á botni B-deildarinnar með tvö stig í mínus.
Kórónuveirufaraldurinn fór sérstaklega illa með Derby en talið er að hann hafi kostað félagið tuttugu milljónir punda.
Wayne Rooney er knattspyrnustjóri en hann tók við liðinu um miðjan janúar á þessu ári. Í viðtali eftir sigurinn á Stoke City um helgina sagðist hann ætla að hjálpa starfsfólki Derby sem myndi missa vinnuna á næstu dögum.
„Fullt af starfsfólki félagsins mun eflaust missa starfið og það brýtur í manni hjartað. Þau eru flest öll augljóslega með húsnæðislán og reikninga sem þarf að borga. Þetta er ömurlegt í alla staði og ég mun gera allt sem í mínu valdi stendur til að styðja við bakið á starfsfólki félagsins og hjálpa því eins og ég get. Mér líður eins og starfsfólk félaganna gleymist oft í umræðunni, það er mikið af góðu fólki sem starfar hér og hefur gert í langan tíma. Við þurfum öll að standa saman,“ sagði Rooney.
Forráðamenn Derby leita nú að nýjum eigendum til að bjarga félaginu. Vonast er til að liðið geti klárað tímabilið í ensku B-deildinni.
Mel Morris eignaðist meirihlut í Derby 2015 en hefur reynt að selja félagið síðan 2019. Að hans sögn hefur hann tapað í kringum tvö hundruð milljónum punda á félaginu.

Championship-deildin er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. EFL Championship er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.