Skoðun

Viltu svona samfélag?

Árni Múli Jónasson skrifar

Í Fréttablaðinu 17. september sl. sagði:

„Almenningur á Íslandi hefur töluvert sterkari hugmyndir en aðrir Norðurlandabúar um að auðmagn móti tækifærin. Þá telja Íslendingar að pólitísk tengsl hér á landi séu sérlega mikilvæg og eru á pari við Rússa í þeim skoðunum.

Miðað við nágrannalönd Íslendinga eru óvenjumargir hér á landi sem telja að pólitísk sambönd skipti miklu máli fyrir tækifærin í lífinu. Ísland líkist meira Rússlandi en Norðurlöndunum hvað þetta viðhorf varðar. Þetta kemur fram í Alþjóðlegu viðhorfakönnuninni sem kynnt verður í dag.“

Transparency International, alþjóðleg samtök gegn spillingu, birtu 28. janúar sl. niðurstöður mælinga á spillingu í flestum löndum heims árið 2020. Spillingarvísitala Íslands hefur lækkað jafnt og þétt undanfarin ár og gerði það líka milli áranna 2019 og 2020. Danmörk er allra efst á listanum nú með 88 stig af 100 mögulegum (0 þýðir mikil spilling en 100 þýðir lítil spilling). Finnland og Svíþjóð eru þar í þriðja sæti með 85 stig og Noregur í sjöunda sæti með 84 stig. Ísland er hins vegar í 17. sæti á listanum með 75 stig en var með 78 stig á listanum árið 2019 og í 11. sæti þá. Niðurstaða mælingarinnar á Íslandi er því mun lægri en annars staðar á Norðurlöndum. Ísland er með öðrum orðum langspilltast allra Norðurlandanna.

Svona er staðan hér á landi 13 árum eftir bankahrun og búsáhaldabyltingu!

Svona er nú staðan 5 árum eftir birtingu Panamaskjalanna þar sem íslenskir stjórnmálamenn og auðmenn vöktu heimsathygli fyrir mikinn vilja sinn til að fela auðinn í útlendum skattaskjólum!

Hélstu að þetta yrði svona?

Viltu svona samfélagi?

Ef þú vilt ekki að íslenskt samfélag sé svona og verði svona áfram skaltu kynna þér stefnu Sósíalistaflokksins, „Ráðumst að rótum spillingar“.

Og ef þú hefur fengið miklu meira en nóg af þessu sukki og siðleysi geturðu látið það álit þitt í ljós með mjög einföldum en áhrifaríkum hætti:

Kjóstu Sósíalistaflokkinn!

Höfundur er í öðru sæti á lista Sósíalistaflokksins í Norðvesturkjördæmi.




Skoðun

Sjá meira


×