Kórdrengir leiddu leikinn þegar komið var í uppbótartíma, en Davíð Smári virtist mjög ósáttur með það hversu miklu Egill Arnar Sigurþórsson, dómari leiksins, og kollegar hans bættu við.
Egill lét ekki bjóða sér þessa framkomu og gaf Davíð beint rautt spjald. Á fimmtu mínútu uppbótartíma jöfnuðu Framarar svo leikinn og þá sauð upp úr.
Davíð rauk inn á völlinn og jós fúkyrðum yfir Egil dómara. Í hamaganginum reif hann spjöldin af Agli, en skilaði þeim þó að lokum.
Þetta var í annað skipti á tímabilinu sem Davíð fær að líta rauða spjaldið og nú fær hann alls fimm leikja bann. Félagið fær einnig 15.000 króna sekt, en Davíð missir af lokaleik tímabilsins og upphafi þess næsta. Kórdrengir mæta Vestra í lokaleik tímabilsins, en liðið situr í fjórða sæti Lengjudeildarinnar og getur með sigri lyft sér upp í það þriðja.