Marel var stofnað árið 1983 og er eitt þekktasta og stærsta fyrirtækið á landinu og jafnframt það stærsta sem skráð er í Nasdaq kauphöllinni á Íslandi. Í raun er félagið samofið upphafi og sögu íslensks hlutabréfamarkaðar en félagið var skráð árið 1992 í Kauphöllina, ári eftir að hlutabréfaviðskipti hófust hér á landi. Félagið hefur frá árinu 2019 einnig verið skráð í Euronext Kauphöllina í Amsterdam.
Árni og Magnús munu spjalla um starfsemi og stefnu Marel, sem með nýsköpun og sjálfbærni að leiðarljósi er að umbylta matvælaframleiðslu á heimsvísu. Frá skráningu í íslensku Nasdaq kauphöllina 1992, hefur Marel vaxið frá því að vera með 45 starfsmenn í um 6.800 starfsmenn í 30 löndum í dag, þar af 720 á Íslandi.
Marel velti 1,2 milljörðum evra árið 2020, en árlega fjárfestir félagið um 6% af veltu í nýsköpun og vöruþróun sem styður við aukna hagkvæmni, öryggi og sjálfbærni í matvælavinnslu. Fyrsta Marel-vogin var hönnuð árið 1978 á Raunvísindastofnun Háskóla Íslands og varð kveikjan að gagnabyltingu í íslenskum sjávarútvegi.
Allar götur síðan hefur Marel byggt á gagnasöfnun og nýsköpun til þess að auka verðmæti og minnka sóun.