Skoðun

Enginn al­vöru um­hverfis­verndar­flokkur á Ís­landi?

Árni Múli Jónasson skrifar

Ættingi minn, sem er mikill áhugamaður um umhverfisvernd og fylgist því náið með þeim málum, sagði við mig um daginn:

„Þótt ýmislegt sé bitastætt í nýrri aðgerðaáætlun í loftslagsmálum er hún er um of samansafn af viljayfirlýsingum án alvöru árangursmælikvarða og víkur sér fimlega hjá mörgu því sem er óþægilegt og ekki til vinsælda hjá atvinnurekendum. Opinberir fjármunir í loftslagsmálin, líklega mikilvægasta viðfangsefni okkar tíma, eru heldur í engu samhengi við mikilvægið. Samkvæmt fjárlögum fara liðlega 5 milljarðar í „náttúruvernd, skógrækt og landgræðslu“ meðan 6 milljarðar fara í stjórnsýslu umhverfismála eina og sér. Loftslagsmálin hafa ekki einu sinni eigin línu í fjárlögum!“

Ég gat ekki annað en tekið undir þessi orð og að þetta væri vægast sagt furðulegt.

Hann bætti svo við:

„Það vantar alveg flokk á Íslandi sem er helgaður langstærsta viðfangsefni nútímans, viðfangsefni sem snýst um hvers konar framtíð mannkynið ætlar börnum sínum. Á Íslandi er engan alvöru græningjaflokk að finna. Að vísu kallar einn flokkur sig grænan og annar flaggar græna litnum og kornaxi í skjaldarmerki, en það er eiginlega allt og sumt. Enginn flokkur sem á fulltrúa á Alþingi hefur kynnt stefnu eða boðað róttækar aðgerðir af því tagi sem gæfu til kynna að þessi málaflokkur væri settur öðrum hærra.“

Ég andmælti því harðlega að það væri enginn alvöru umhverfisverndarflokkur á Íslandi. Hvers vegna? Vegna þess að Sósíalistaflokkurinn er róttækur umhverfisverndarflokkur. Í stefnu flokksins í umhverfis- og loftslagsmálum segir m.a.:

„Að litið sé á umhverfis- og loftlagsmál sem mannúðarmál er varðar réttindi komandi kynslóða til lífs. Það skal því vera skylda stjórnvalda að vernda náttúru og lífríki og löggjafinn nýttur til þess í hvívetna.“

„Að lýst sé yfir neyðarástandi í loftslagsmálum og skulu íslensk yfirvöld bregaðst við þeim vanda hratt og örugglega og í samvinnu við umheiminn.“

„Að horfið sé frá kapítalísku hagkerfi og leiðum nýfrjálshyggjunnar til að takast á við umhverfismál og að fundnar verði heildrænar lausnir þar sem ábyrgðin og áherslan er fyrst og fremst sett á ríki, sveitarfélög og fyrirtæki.“

„Að litið sé á umhverfismál sem sameignlega hagsmuni allra jarðarbúa með því að skoða og taka tillit til hnattrænna vistspora og raunverulegs kostnaðar framleiðslu og áhrif hennar á fólk og lífríki fjarlægari landa ekki síður en nærumhverfis.“

Kynntu þér stefnu Sósíalistaflokksins í umhverfis- og loftslagsmálum (https://sosialistaflokkurinn.is/malefnaflokkar/umhverfis-og-loftslagsmal/) og kjóstu flokk sem lítur á rétt fólks nú og í framtíðinni til óspilltrar náttúru og heilsusamlegs umhverfis sem mikilvægt mannréttindamál og mun aldrei láta græðgi fárra, hálfkák og kjarkleysi stjórna afstöðu sinni í umhverfis- og loftslagsmálum.

Höfundur er félagi í Sósíalistaflokknum og er í framboði fyrir flokkinn í Norðvesturkjördæmi.




Skoðun

Sjá meira


×