Bandaríski fjölmiðillinn airinsight segir frá þessu og að stefnt sé að því að hefja flugið næsta sumar.
Birgir Jónsson, forstjóri Play, segir í samtali við Vísi að félagið hafi áður gefið það út að hefja flug milli Norður-Ameríku og Íslands og að gögnum hafi verið skilað inn fyrir helgi.
„Þetta var partur af okkar skráningu á markað og við stefnum á að geta hafi flug næsta vor. Þetta er gríðarlega stórt verkefni. Mikið regluverk og þarf að plana vel.“
Birgir segir að þetta þurfi nú að hafa sinn gang þar sem bandarísk flugmálayfirvöld munu nú svara félaginu. „Það hafa margir hér staðið í þessu áður hjá WOW. Það þarf að undirbúa þetta vel, enda stórt mál.“
Halda spilunum þétt að sér
Birgir segist vona að hægt verði að hefja á sölu á miðum í flug til Bandaríkjanna fyrir áramót, en að áætlunarflug vestur hefist svo næsta vor.
Hann vill þó lítið gefa uppi um áfangastaði, en að sjálfsögðu sé litið til stærstu borganna, svo sem New York, Boston og Washington DC. Félagið ætli þó að halda spilunum þétt að sér og verði áfangastaðir flugfélagsins kynntir síðar.
Birgir segir þó að einungis sé litið til austurstrandar Bandaríkjanna og Kanada, ekki áfangastaða á Kyrrahafsströndinni. „Við lítum til austurstrandarinnar til að halda vélunum í þessari „24 tíma lúppu“ og tryggja þannig betri nýtni á vélunum. Reynslan sýnir að flug til vesturstrandarinnar auki á flækjustig hvað nýtni vélanna varðar.“
Flugvélafloti Play telur nú þrjár A321neo vélar, og er von á þremur til viðbótar á næsta ári.