Fyrirhugað var að kennsla barna í 2. til 4. bekk færi fram í gámum á skólalóðinni vegna myglu í skólahúsnæðinu en ekki tókst að klára frágang í tæka tíð. Í staðinn vildi Reykjavíkurborg að börnunum yrði kennt í aðstöðu sem íþróttafélagið Víkingur bauð fram en mikil óánægja var með þá niðurstöðu.
Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar sendi í gær út könnun til starfsmanna og foreldra barna í 2. til 4. bekk Fossvogsskóla þar sem hugur þeirra til þriggja valkosta í húsnæðismálum fyrir fyrstu vikur skólaársins var kannaður.
Lítill stuðningur við kennslu í Korpuskóla
Um 70% foreldra og 90% og starfsfólks völdu að börnin myndu fara með skólarútu í nýtt húsnæði Hjálpræðishersins. Borgaryfirvöld hafa tekið ákvörðun byggða á niðurstöðunum og munu árgangarnir hefja nám í húsnæði Hjálpræðishersins við Suðurlandsbraut 72 á mánudagsmorgun. Þetta kemur fram í tilkynningu frá borginni.
Hinir valkostirnir voru annars vegar að halda sig við kennslu í Víkingsheimilinu og hins vegar að 2. bekk yrði kennt þar en 3. og 4. bekkur færi með rútu í Korpuskóla.

Hjálpræðisherinn hefur boðið afnot að húsakynnum sínum fyrir fyrstu vikur skólaársins.
„Skólastjórnendur og annað starfsfólk hafa kynnt sér aðstæður þar síðustu daga og segja þær til fyrirmyndar. Húsnæðið var tekið í notkun í desember á síðasta ári og þar eru loftgæði með besta móti og hljóðvist til fyrirmyndar. Kennsla mun fara fram í rúmgóðum rýmum með stórum gluggum. Þá er aðstaða fyrir kennara mjög góð,“ segir í tilkynningu.
„Salernisaðstaða er mjög aðgengileg og þægileg, auk þess sem beinn aðgangur er að garði sunnan við húsið. Á lóð hússins eru ný leiktæki, vellir fyrir boltaleiki og stutt í önnur útivistarsvæði.“
Fréttin hefur verið uppfærð.