Fyrirhugað var að kennsla barna í 2. til 4. bekk myndi fara fram í gámum á skólalóðinni þetta haustið vegna mygluvanda í skólahúsnæðinu. Gámarnir verða hins vegar ekki tilbúnir fyrr en eftir nokkrar vikur.
Í staðinn vildi Reykjavíkurborg að börnunum yrði kennt í aðstöðu sem íþróttafélagið Víkingur bauð fram; annars vegar í sal í félagsheimili þess, Berserkjasalnum, og hins vegar frammi á gangi í tengibyggingu hússins. 2. bekkur átti að fá kennslu í Berserkjasalnum en 3. og 4. bekkur á ganginum.
Foreldrar barna við skólann hafa mótmælt þessari niðurstöðu og framgöngu borgarinnar í málefnum skólans. Einnig hefur fundist mygla í leikskólanum Kvistaborg.
Ekki börnunum boðlegt
Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, segir óboðlegt hve langan tíma framkvæmdir á húsnæði Fossvogsskóla hafa tekið. Þetta er haft eftir henni í Morgunblaðinu í dag en Lilja er í hópi foreldra nemenda við skólann.
„Þetta vandamál var umfangsmeira en menn héldu í fyrstu og frágangurinn reyndist ekki vera eins og best verður á kosið og þess vegna hefur þetta tekið svona langan tíma,“ segir hún.
„Það er þó börnunum ekki boðlegt því að tíminn líður svo hratt og hver dagur skiptir máli.“
Þá segir hún foreldra ansi hrædda um að lausnin á húsnæðisvanda skólans sé ekki tímabundin.
Kanna vilja foreldra
Reykjavíkurborg sendi könnun á foreldra í gær þar sem þeir voru boðnir eftirfarandi kostir í stöðunni:
- Að halda sig við staðsetninguna í Fossvogsdalnum þar sem 2. til 4. bekk verður kennt í Víkingsheimilinu fyrstu vikurnar, 2. bekkur í svokölluðum Berserkjasal en 3. til 4. bekk á ganginum.
- Að 2. bekk yrði kennt Berserkjasalnum á jarðhæð Víkingsheimilisins og að 3. og 4. bekkur fari með rútu í Korpuskóla.
- Að skólastarf 2. til 4. bekkjar fari fram í nýju húsnæði Hjálpræðishersins við Suðurlandsbraut. Börnin myndu þá fara með rútu þangað og til baka frá Fossvogsskóla.
Foreldrarnir hafa fram til hádegis í dag til að svara könnuninni.
Alexandra Briem, forseti borgarstjórnar, sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 á fimmtudag skilja reiði foreldra í Fossvogsskóla með ráðstafanir borgaryfirvalda.
Lausnir væru í sjónmáli en sennilegt væri að Víkingsheimilið yrði notað í einhverri mynd, þótt aðrar lausnir hafi verið ræddar.
„Það sem ég myndi segja að væri kannski lélegast í þessu hjá okkur er að við höfum ekki haft nógu góðan innri verkferil til að taka á þessu,“ sagði Alexandra.