Mohammed Salim segir Reuters-fréttastofunni að hundruð manna hafi veifað svörtum, rauðum og grænum þjóðfána Afganistans í tilefni af þjóðhátíðardeginum. Afganistan öðlaðist sjálfstæði frá Bretum á þessum degi árið 1919.
„Í fyrstu var ég hræddur og vilti ekki fara en þegar ég sá einn nágranna minna slást í hópinn náði ég í fánann sem ég á heima,“ segir Salim.
Þrír voru drepnir þegar talibanar skutu á mótmælendur sem höfðu tekið niður hvítan þeirra og reynt að draga afganska fánann að húni í Jalalabad í gær.
Sambærilegar uppákomur áttu sér stað víðar um Afganistan í gær þó að ekki kæmi til mannfalls, þar á meðal í Asadabad og í Khost í austanverðu landinu.
Amrullah Saleh, varaforseti, lýsti yfir stuðningi sínum við mótmælin en hann reynir nú að skipuleggja andspyrnu gegn talibönum.
„Hyllið þau sem bera þjóðfánann og standa þannig fyrir reisn þjóðarinnar,“ sagði Saleh á Twitter. Hann telur sig lögmætan forseta Afganistans eftir að Ashraf Ghani flúði land áður en talibanar lögðu undir sig höfuðborgina Kabúl um helgina.
Leiðtogar talibana hafa heitið því að virða mannréttindi og að fyrrum óvinir þeirra hafi ekkert að óttast nú þegar þeir hafa tekið völdin í landinu. Margir landsmenn eru þó fullir efasemda um þau loforð enda minnugir ógnarstjórnarinnar sem talibana stóðu fyrir þegar þeir voru síðast við völd frá 1996 til 2001.