Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra mun semja við einkafyrirtæki í heilbrigðisþjónustu um að létta undir með Landspítalanum vegna manneklu. Þetta kom fram á Fréttavaktinni á Hringbraut í gærkvöldi. Með þessu sé leitað leiða til að manna vaktir á gjörgæsludeildum spítalans. Heilbrigðisstarfsmenn frá Klíníkinni Ármúla voru sendir á Landspítalann í gær til að svara kallinu.
Samningur við innlenda aðila dugi ekki til
Rætt var við Ólaf G. Skúlason, forstöðumann skurðstofa og gjörgæsludeilda á Landspítala, sem segir útspilið gott skref en að það dugi ekki til.
„Við höfum núna fengið fjóra hjúkrunarfræðinga og svæfingalækna til að hjálpa okkur og munar mjög um það og erum þakklát fyrir þennan samning. Hins vegar verðum við að viðurkenna það að til þess að manna gjörgæslurnar í núverandi ástandi þurfum við um hundrað manns á dag til þess að sinna þessum sjúklingum. Þannig að við þurfum að leita frekari leiða til að manna þetta enn frekar.“
Hóflega bjartsýn
Ólafur hefur ekki upplýsingar um það hve mikið aðgerðin muni kosta skattgreiðendur. Hann segir að vöntun sé á sérhæfðu starfsfólki og því þurfi einnig að leita annarra leiða til að nálgast vandann.
„Við erum meðal annars að ræða við starfsmannaleigur erlendis og á Norðurlöndunum til þess að fá þessa sérhæfðu gjörgæsluhjúkrunarfræðinga sem hafa reynslu af því að ferðast á milli landa. Sænskir hjúkrunarfræðingar hafa til dæmis mjög mikla reynslu af því en við vitum jafnframt að önnur lönd eru líka í vandræðum með gjörgæslur og legupláss og þurfa á sínu starfsfólki að halda. Þannig að við vonum að það skili okkur einhverju en við erum hóflega bjartsýn.“