Maðurinn deilir myndbandinu sjálfur á Instagram-síðu sinni. Þar má sjá hann blása í áfengismæli lögreglunnar, bíða niðurstöðunnar rólegur, en um leið og hún liggur fyrir - og hún virðist samkvæmt myndbandinu ætla að vera honum í óhag - stígur hann á bensíngjöfina.
Því næst má sjá hann aka á ógnarhraða á brott frá lögreglunni, augljóslega ekki samkvæmt samkomulagi við hana: „Heyrðu, við sjáumst,“ segir hann við lögregluþjóninn. „Gaur, hann stakk lögguna af,“ segir þá myndatökumaðurinn.
Myndbandið af honum hefur um nokkra hríð verið í dreifingu á meðal Íslendinga en hefur nú greinilega fært út kvíarnar á alþjóðavettvang.
Athæfið vekur kátínu áhorfenda World Star Hip Hop og milljón manns hafa þegar horft á myndbandið á Instagram, þar sem bloggið birtir ferskustu hneykslin hverju sinni. Fylgjendurnir eru 32 milljónir á Instagram.
Eftir nokkurra mínútna eftirför, þar sem hraðinn teygði sig upp í hátt í 180 kílómetra hraða á köflum, handsamaði lögregla manninn, eins og hann staðfestir í samtali við Vísi. Hér að neðan má sjá þá atburðarás eins og hún var sýnd á Instagram í beinni á dögunum.