„Það er enginn feluleikur á bak við það,“ segir Páll í samtali við Vísi um nýju þættina. Þeir heita Pólitík með Páli Magnússyni og verða á dagskrá alla miðvikudaga á Hringbraut fram að kosningum, alls sjö þættir. Fréttablaðið greindi frá þessu í gær.
Sá fyrsti verður sýndur næsta miðvikudag og verða þau Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna, og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, gestir þáttarins.
En þurfa áhorfendur að hafa áhyggjur af hlutleysi Páls þegar hann stýrir pólitískum þætti sem sitjandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins?
„Fólk veit hvaðan ég kem og verður síðan bara að meta það á eigin forsendum hvort ég stjórnist af einhverjum annarlegum hvötum,“ segir Páll léttur í bragði.
„En það er auðvitað það sem setur á þetta dálítið óvenjulegan og kannski dýnamískan eða spennandi vinkil, að ég er þarna að tala við fólk sem ég hef haft sem starfsfélaga, svo að segja, eða verið í kringum og starfað með í pólitík, bæði bandamenn og andstæðinga.“
Hann segir að formið sé vel þekkt erlendis. Í Bandaríkjunum sé til dæmis ekki óalgengt að bæði fyrrverandi og sitjandi pólitíkusar séu fengnir til að stýra viðtals- og umræðuþáttum.
Páll er auðvitað afar reyndur fjölmiðlamaður; starfaði í fréttastjórastöðum hjá Stöð 2, RÚV og víðar og síðast sem útvarpsstjóri Ríkisútvarpsins. Hann fór svo inn á þing árið 2016 en ákvað að gefa ekki aftur kost á sér fyrir næstu þingkosningar.
Fara menn þá beint aftur í fjölmiðla?
„Ætli ég geri það ekki bara upp við mig þegar þessari seríu lýkur,“ segir Páll.
„Þá geri ég það upp við mig hvort ég hafi enn þá jafngaman að þessu og ég hafði. Ég er að bisast við að halda mig við þá reglu sem ég setti mér að gera bara það sem mér þykir skemmtilegt hverju sinni.“