Minnst fjórir hafa látist í eldunum og þúsundir ferðamanna hafa þurft að flýja ferðamannabæina Antalya og Muğla. Floti smábáta ferjaði ferðamenn á öruggari staði.
Aðstæður í Tyrklandi eru ekki með góðu móti, miklir þurrkar hafa verið og hitamet féll í landinu í síðustu viku þegar hiti mældist 49,1 gráða á selsíus í bænum Cizre í suð-austurhluta Tyrklands.
Gróðureldar eru algegnir á Tyrklandi yfir sumarmánuðina en hiti frá gróðureldum hefur aldrei mælst hærri þar í landi. „Þessar tölur eru út fyrir skalann miðað við síðustu nítján ár,“ segir Mark Parrington, vísindamaður hjá Copernicus veðurathugunarstöð Evrópusambandsins.
Íbúar í bæjum sem hafa farið illa út úr gróðureldunum segjast aldrei hafa séð aðra eins elda. „Allt sem ég á brann til kaldra kola. Ég tapaði lömbum og öðrum dýrum. Þetta er ekki eðlilegt, þetta var eins og helvíti,“ segir Ibrahim Aydın bóndi.
Ráðamenn í Tyrklandi hafa kennt árásum PKK um gróðureldana en ekki sýnt fram á nein sönnunargögn þess efnis. PKK eru samtök sem berjast fyrir sjálfstæði Kúrdistan.
Fáir tyrkneskir miðlar hafa fjallað um loftlagsvána sem skýringu á þeim miklu eldum sem geisa í landinu en meginþorri vísindamanna kennir loftlagsvánni um fjölgun gróðurelda í heiminum.