Þetta kemur fram í nýrri skýrslu þar sem segir að hörð átök í dreifðari byggðum landsins frá upphafi maímánaðar hafi bitnað illilega á venjulegum Afgönum, en Talíbanar hafa verið að færa sig verulega upp á skaftið í landinu og stjórna nú stórum landsvæðum.
Í skýrslu Sameinuðu þjóðanna er bent á að mannfallið nú eigi sér fyrst og fremst stað á strjálbýlli svæðum og að það gæti því aukist enn meira ef átökin færast til stærri borga og bæja.
Frá fyrsta maí hafa 783 almennir borgarar látið lífið og um 1600 særst, og er það svipuð tala og var fyrstu fjóra mánuði ársins. Þetta eru hæstu tölur síðan Sameinuðu þjóðirnar hófu að taka slíkt saman fyrir hvern mánuð árið 2009 og líklega þær hæstu síðan Talíbönum var komið frá völdum árið 2001, að því er skýrsluhöfundar segja.
„Ég grátbið Talíbana og leiðtoga Afganistan að taka mark á dapurlegum og ógnvænlegum ferli átakanna og hrikalegra áhrifa þeirra á almenna borgara,“ segir Deborah Lions, fulltrúi aðalritara Sameinuðu þjóðanna í Afganistan, um ástandið í landinu.