Úrhellisrigning hefur orsakað hamfaraflóð í miðju Kína undanfarna daga og féll aurskriða á bæinn Wangzongian í Henen héraði í gær vegna úrhellisins. Sérfræðingar segja að meiri rigningar hafi ekki fallið í Kína í þúsund ár og segja að rigningarnar sem hafi fallið samsvari rigningum sem falla í venjulegu árferði á heilu ári.
Samkvæmt frétt breska ríkisútvarpsins hafa minnst 51 farist í flóðunum og 400 þúsund hafa þurft að flýja heimili sín.
Myndband af björguninni hefur farið eins og eldur í sinu um netmiðla í Kína. Talið er að stúlkan sé þriggja eða fjögurra mánaða gömul.
„Ég heyrði barnið gráta og stuttu síðar voru björgunaraðilar mættir og náðu að bjarga barninu. Henni hafði verið kastað upp í rjáfur af móður hennar,“ sagði fjölskyldumeðlimur stúlkunnar í samtali við staðarmiðil í Kína.
Brunað var með stúlkuna á sjúkrahús en hún reyndist ómeidd. Lík móður hennar fannst í gær og segja björgunaraðilar í samtali við Beijing Youth Daily að lík hennar hafi verið frosið í stellingu eins og hún hafi verð að lyfta einhverju upp fyrir höfuð sér.