Tilkynnt var í upphafi árs að þær Sarah Jessica Parker, Cynthia Nixon og Kristin Davis myndu snúa aftur sem vinkonurnar Carrie, Miranda og Charlotte. Kim Cattrall sem fór með hlutverk hinnar djörfu Samönthu verður þó fjarri góðu gamni, þar sem mikið ósætti ríkti á milli hennar og Parker.
Þættirnir munu fjalla um líf vinkvennanna í New York-borg sem nú eru komnar á sextugsaldur. Búast má við því að ástarmál, tíska og kokteilar muni spila stór hlutverk líkt og í Sex and the City þáttunum.
Aðdáendur þáttanna og aðrir tískuunnendur út um allan heim hafa beðið í mikilli eftirvæntingu eftir nýju þáttunum, en verða að láta sér þessar myndir duga fram að frumsýningu sem mun fara fram á streymisveitunni HBO MAX. Ekki hefur þó verið gefið út hvenær þættirnir verða frumsýndir, en tökur eru í fullum gangi.










