Þetta kemur fram í tilkynningu bankans til kauphallar þar sem segir að samkvæmt drögunum sé afkoma fjórðungsins um 7,8 milljarðar króna og reiknuð arðsemi á ársgrundvelli ríflega sextán prósent.
Rekstrartekjur fjórðungsins nemi um 15 milljörðum króna, þar af séu tekjur af kjarnastarfsemi (hreinar vaxtatekjur, hreinar þóknanatekjur og hreinar tekjur af tryggingastarfsemi) um 12 milljarðar króna. Hækka þær um 10,5 prósent frá öðrum ársfjórðungi 2020. Rekstrarkostnaður fjórðungsins nemur ríflega 6 milljörðum króna.
„Stærsta breytingin milli ára liggur í virðisbreytingu útlána sem var jákvæð um 0,8 milljarð króna á öðrum ársfjórðungi 2021 en á sama tíma fyrir ári var virðisbreyting neikvæð um 0,9 milljarð króna og tengdist að mestu þeirri óvissu sem uppi var vegna COVID-19 faraldursins. Hreinar þóknanatekjur á öðrum ársfjórðungi 2021 námu 3,6 milljörðum króna, samanborið við 2,7 milljarða króna á sama tíma í fyrra,“ segir í tilkynningunni.
Tekið er þó fram að uppgjörið sé enn í vinnslu og könnunarvinnu endurskoðenda ekki lokið, því kunni uppgjörið að taka breytingum fram að birtingardegi þess, þann 28. júlí næstkomandi.