Strache sagði af sér sem varakanslari eftir að leynileg myndbandsupptaka birtist af honum ölvuðum í samræðum við rússneska konu á spænsku eyjunni Ibiza. Konan þóttist vera frænka rússnesks ólígarka og gaf í skyn að hún hefði hug á að kaupa stærsta götublað Austurríkis. Bauð Strache henni þá ábatasama samninga við ríkið í skiptum fyrir stuðning blaðsins við flokkinn.
Upptakan, sem var gerð skömmu fyrir þingkosningar árið 2017, leiddi til spillingarrannsókna og var lagt hald á síma Strache og fleiri stjórnmálamanna. Hneykslismálið hefur verið nefnt „Ibizagate“ í fjölmiðlum.
Í málinu sem var tekið fyrir í dag er Strache ákærður fyrir að reyna að breyta lögum í þágu einkarekins sjúkrahúss í skiptum fyrir framlög í kosningasjóði Frelsisflokksins. Hann er sakaður um að hafa þegið 10.000 evrur, jafnvirði tæprar einnar og hálfrar milljónar íslenskra króna.
AP-fréttastofan segir að Strache gæti átt yfir höfði sér sex mánaða til fimm ára fangelsisrefsingu verði hann fundinn sekur. Lögmenn hans segja að hvorki hann né þeir ætli að tjá sig opinberlega á meðan réttarhöldin standa yfir.