Á lista utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna segir að Tyrkland hafi veitt hersveitum Multan Surad í Sýrlandi beinan stuðning á undanförnu ári. Hersveitin er ein þeirra sem berst gegn stjórnarher Sýrlands og hefur það lengi verið þekkt að hún njóti stuðnings yfirvalda í Tyrklandi. Þá er sveitin þekkt fyrir að nýliða og nota „hermenn“ sem eru á barnsaldri.
Á blaðamannafundi í dag sagði starfsmaður utanríkisráðuneytisins að Tyrkland tengist einnig barnahernaði í Líbíu. Yfirvöld í Washington vonist til þess að geta unnið úr málinu í samstarfi við yfirvöld í Ankara. Fréttastofa Reuters greinir frá.
Tyrkland er fyrst aðildarríkja NATO sem hefur ratað á þennan lista. Tyrknesk yfirvöld hafa ekki tjáð sig um málið
Sýrland og Líbía blandast í málið
Tyrkland hefur lengi haldið út hernaðaraðgerðum í Sýrlandi bæði gegn hersveitum hryðjuverkasamtakanna sem kenna sig við íslamskt ríki og gegn hersveitum Kúrda, sem lengi hafa notið stuðnings Bandaríkjamanna. Þá hafa tyrkneskar hersveitir lengi barist samhliða sýrlenskum hermönnum.
Margar þeirra hersveita sem Tyrkland tengist hafa verið sakaðar af mannréttindasamtökum og Sameinuðu þjóðunum að hafa ráðist gegn almennum borgurum og að hafa farið ránshendi um þorp og bæi. Sameinuðu þjóðirnar hafa lengi hvatt Tyrki til að reyna að hafa hemil á þeim sýrlensku uppreisnarhersveitum sem þeir tengjast en Tyrkland hefur ávallt neitað öllum ásökunum á hendur félaga sinna.
Þá hefur Tyrkland lengi tengst átökunum í Líbíu, bæði með herferðum eigin hersveita og annarra sem notið hafa stuðnings tyrkneskra yfirvalda. Til að mynda hefur stuðningur Tyrklands verið stjórnarher Líbíu mikil hjálp við að halda aftur af hersveitum sem sækja úr austri, en þær njóta margar hverjar stuðnings Egyptalands og Rússlands.
Hefur þetta áhrif á Afganistan?
Samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna eiga stjórnvöld, sem komast á þennan lista, yfir höfði sér einhvers konar takmarkanir er varða öryggisaðstoð á vegum Bandaríkjanna. Þá eru einnig einhver takmörk á því hvers konar vopn ríkin á listanum geta keypt frá Bandaríkjunum.
Þó er ekki enn ljóst hvort þessar takmarkanir muni eiga við Tyrkland. Þá hafa einhverjar spurningar vaknað um það hvort þetta muni hafa áhrif á samningaviðræður Bandaríkjanna og Tyrklands um að Tyrkir muni taka við rekstri flugvallarins í Kabúl í Afganistan eftir að hersveitir Bandaríkjanna hafa yfirgefið landið alveg.
Ned Price, talsmaður utanríkisráðuneytisins, sagði í dag að ólíklegt sé að þetta muni hafa einhver áhrif á samningsviðræðurnar. „Ég vil ekki endilega tengja viðveru Tyrklands á þessum lista við samningsviðræðurnar sem standa nú yfir við Tyrkland, það er að segja vegna Afganistan eða annarra ríkja þar sem bæði ríki hafa hagsmuna að gæta,“ sagði hann.