Miklar áhyggjur um líf og heilsu Latifu hafa verið uppi undanfarna mánuði, í raun allt frá því í febrúar þegar breska ríkisútvarpið sendi út myndefni sem Latifa tók upp, þar sem hún segir að sér sé haldið fanginni af öryggisvörðum á vegum föður síns og að hún hræðist um líf sitt.
Myndefnið varð til þess að Sameinuðu þjóðirnar kröfðust þess að fá haldbær sönnunargögn um það að prinsessan sé á lífi.
Myndina birti Sioned Taylor, sem hefur verið vinkona Latifu um árabil, á Instagram-reikningi sínum. Þetta er þriðja myndin sem hún birtir frá því um miðjan maí sem talin er vera af prinsessunni.
„Frábært frí í Evrópu með Latifu,“ skrifar Taylor í yfirskrift myndarinnar. „Við skemmtum okkur vel!“
Konurnar tvær bera báðar grímur fyrir vitum á myndinni og netverjar hafa komist að þeirri niðurstöðu að þær séu líklega staddar á Barajas flugvellinum í Madríd á Spáni.
Latifa er ein 25 barna Mohammeds bin Rashid al Maktoum, sjeiks af Dubai. Hún gerði tilraun í febrúar 2018 til að flýja landið á báti en undan Indlandsströndum náðu öryggissveitir föður hennar bátnum í þyrlu og fluttu hana aftur til Dubai.
Í myndbandi sem Latifa tók upp stuttu fyrir flóttann sagðist hún ekki hafa yfirgefið landið frá árinu 2000. Hún hafi ítrekað óskað eftir því að fá að ferðast, fara í skóla og gera eitthvað „venjulegt“ en henni hafi aldrei verið leyft það.