Halla-aho hefur verið formaður hægripopúlíska flokksins Sannra Finna undanfarin fjögur ár. Hann tilkynnti um ákvörðun sína um að gefa ekki kost á sér sem formaður áfram á stafrænum fundi með félögum sínum í dag, að sögn finnska ríkisútvarpsins YLE.
Sagði Halla-aho félögum sínum að það væri ekki gott fyrir leiðtoga að gerast of þaulsetinn. Þá byrjaði hann að trúa því að hann væri ómissandi. Lýsti hann ekki yfir stuðningi við neinn mögulegan eftirmann sinn.
Ville Tavio, formaður þingflokks Sannra Finna, sagði að tækifæri fælist í brotthvarfi Halla-aho sem formanns.
Kjör Halla-aho sem formanns sumarið 2017 varð kveikjan að deilum sem klufu flokkinn. Eftir þingkosningar árið 2015 tóku Sannir Finnar sæti í ríkisstjórn Juha Sipilä forsætisráðherra. Sipilä vildi ekki halda stjórnarsamstarfinu áfram eftir að Halla-aho náði kjöri sem formaður Sannra Finna. Halla-aho er harðlínumaður í innflytjendamálum og var eitt sinn dæmdur til að greiða sekt vegna ummæla sinna um tengsl íslamstrúar og barnaníðs annars vegar og að Sómalar væru þjófar.
Meiri en helmingur þingmanna Sannra Finna sagði þá skilið við þingflokkinn og hélt áfram í ríkisstjórninni. Þingmönnunum var vikið úr flokknum í kjölfarið, þar á meðal Timo Soini, fyrrverandi formanni flokksins til tveggja áratuga. Halla-aho og þeir sem eftir voru í þingflokknum fóru í stjórnarandstöðu.
Sannir Finnar eru næst stærsti flokkurinn á finnska þinginu og stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn. Klofningsflokkurinn Blái umbótaflokkurinn þurrkaðist hins vegar út í þingkosningunum árið 2019.