„Okkar upplýsingar eru þær að hann sé úr bráðri lífshættu en honum er enn haldið sofandi,“ segir Grímur.
Árásin var framin fyrir utan veitingastaðinn Fjallkonuna í Hafnarstræti á aðfaranótt sunnudags. Maður um tvítugt var fluttur illa særður, eftir að hafa verið stunginn með eggvopni í kviðinn, á Landspítala og hann færður á gjörgæslu þar sem hann liggur enn þungt haldinn.
Grímur segir rannsókninni miða vel en hún sé fjarri því að vera lokið. Ekki hafi tekist að komast til botns í því hvort bílbruni sem kom upp í Kópavogi á aðfaranótt sunnudags tengist árásinni. Þá sé ekki víst hvort eggvopn, sem lögregla lagði hald á á vettvangi, sé vopnið sem beitt var í árásinni.
„Við erum enn að ná utan um þetta mál, yfirheyra vitni og þess háttar. Reyna að afla gagna til notkunar í rannsókninni. Það var töluvert af fólki sem var þarna í kring. Það var rætt við það á staðnum af lögreglumönnum sem þar voru en það þarf að fara betur í það,“ segir Grímur.
Hinn grunaði, sem einnig er um tvítugur, var handtekinn í heimahúsi í Kópavogi í gærmorgun og var hann leiddur fyrir dómara í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær. Þar var hann úrskurðaður í gæsluvarðhald og verður hann í haldi fram á föstudag.
Málið er til rannsóknar og er grunur uppi um að það tengist íkveikju í bifreið í Kópavogi í gærnótt.