Maggie Haberman, blaðamaður hjá New York Times, greinir frá þessum hugmyndum forsetans fyrrverandi á Twitter.
„Trump hefur sagt fjölda fólks sem hann er í samskiptum við að hann geri ráð fyrir því að vera settur aftur í embætti fyrir ágúst (nei, það er ekki þannig sem hlutirnir gagna fyrir sig, ég er bara að deila upplýsingum),“ skrifar Haberman á Twitter.
Trump has been telling a number of people he’s in contact with that he expects he will get reinstated by August (no that isn’t how it works but simply sharing the information). https://t.co/kaXSXKnpF0
— Maggie Haberman (@maggieNYT) June 1, 2021
Samkvæmt fjölmiðlum í Bandaríkjunum hefur sú hugmynd, að Trump geti einfaldlega verið settur aftur í embætti á næstu mánuðum, átt auknu fylgi að fagna meðal stuðningsmanna forsetans fyrrverandi.
Á viðburði sem haldinn var í Dallas um helgina undir merkjum guðsótta og þjóðernishyggju sagði Sidney Powell, fyrrverandi lögmaður fyrir framboð Trumps, að það væri einfalt mál að setja Trump aftur í embætti og uppskar mikla gleði viðstaddra.
„Valdarán í anda Mjanmar“
Greint hefur verið frá því að Michael Flynn, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafi Trumps, virtist á sama viðburði sýna hugmynd um „valdarán í anda Mjanmar,“ hugsað til þess að koma Trump aftur til valda, stuðning.
Here is video of former general and National Security Advisor Mike Flynn calling for a Myanmar-like coup to replace the sitting U.S. president with Donald Trump. The talk of war is very real. pic.twitter.com/1GoP5OG1He
— justin glawe (@JustinGlawe) May 30, 2021
Í febrúar á þessu ári framdi mjanmarski herinn valdarán í landinu og fangelsaði Aung San Suu Kyi, kjörinn leiðtoga landsins. Í kjölfarið spratt upp mikil mótmælaalda sem herinn hefur svarað með hörku, þannig að fjöldi mótmælenda hefur verið drepinn.
Flynn hefur síðan hafnað því að hafa opinberlega veitt hugmyndinni um valdarán stuðning og sakað bandaríska fjölmiðla um falsfréttaflutning, líkt og Trump sjálfur hefur oft gert í gegnum tíðina.