Markmið Parísarsamkomulagsins er að halda hnattrænni hlýnun innan við 2°C miðað við tímabilið fyrir iðnbyltingu en stefna að því að hún fari ekki umfram 1,5°C ef nokkur kostur er á. Spá WMO bendir til þess töluverðar líkur séu á að farið verði fram yfir þetta markmið tímabundið strax á næstu fimm árum.
Líkurnar á að farið verði yfir 1,5°C markmiðið tímabundið í nánustu framtíð eru sagðar hafa tvöfaldast frá því í mati sem var unnið í fyrra. Ástæðan er þó fyrst og fremst nákvæmari gögn um viðmiðunartímabilið fyrir iðnbyltingu frekar en skyndileg breyting á loftslagi jarðar.
Innan við 10% líkur eru taldar á því að meðalhiti jarðar verði yfir 1,5°C hærri en viðmiðunartímabilið allt fimm ára tímabilið. Afar líklegt er talið að hlýnunin næstu fimm árin verði á bilinu 0,9-1,8°C.
Petteri Taalas, forstjóri WMO, segir matið sýna að mannkynið nálgist nú lægra markmið Parísarsamkomulagsins á mælanlegan og miskunnarlaust.
„Þetta er enn ein vakningin um að heimurinn þarf á því að halda að markmiðum um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og kolefnishlutleysi verði hraðað,“ er haft eftir Taalas í tilkynningu WMO.
Hlýrra á nær öllum svæðum jarðar
Þá eru taldar 90% líkur á því að í það minnsta eitt ár á tímabilinu 2021 til 2025 verði það hlýjasta frá því að mælingar hófust. Eins og sakir standar er árið 2016 það hlýjasta í mælingarsögunni en þau ár sem síðan eru liðin hafa öll raðað sér í hópi hlýjustu ára sem beinar mælingar ná til.
Árið 2020 var meðalhiti jarðar 1,2°C hærri en fyrir iðnbyltinguna og var það eitt af þremur hlýjustu árum frá upphafi mælinga.
Í matinu sem Veðurstofa Bretlands vann fyrir WMO er varað við því að aukna líkur séu á því að fellibyljum á Atlantshafi fjölgi miðað við meðaltal áranna 1981-2010.
Nærri því öll svæði jarðar, nema hlutar af suðurhöfum og Norður-Atlantshafinu, eru talin verða hlýrri en meðaltal 1981-2010.
Vísindamenn vara við því að hnattrænni hlýnun fylgi hækkun yfirborðs sjávar, skæðari hitabylgjur, ákafari úrkoma og auknar veðuröfgar sem ógna lífríki jarðar og matvælaöryggis, heilsu, og umhverfi manna.