Eftir langt vaxtalækkunartímabil hækkaði Seðlabankinn meginvexti sína í dag úr 0,75 prósentum í eitt prósent vegna þrálátrar verðbólgu innanlands og í útlöndum. Hér heima vegna aukinnar neyslu og mikillar hækkunar húsnæðisverðs en vegna hækkunar hrávöruverðs ytra sem leitt hafi til aukins flutnins- og framleiðslukostnaðar.

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir að með vaxtahækkun nú eigi að reyna að hægja á hagkerfinu.
„Þá hægir vonandi aðeins á fasteignamarkaðnum. Líka öðrum þáttum. Það verður þá dýrara að taka lán og skuldsetja sig,“ segir Ásgeir. Bankann hafi öll spil á hendi til að ná niður verðbólgunni. Gangi það ekki eftir verði vextir hækkaðir enn frekar.
„Við hins vegar viljum bíða og sjá. Við trúum því að þetta séu tímabundnir þættir. En ef ekki verðum við að bregðast við. Við höfum skyldur gagnvart fólkinu í landinu. Að halda stöðugu verðlagi. Halda stöðugleika og það munum við gera.“
Þannig að ef verðbólga fer ekki að hjaðna á næstu mánuðum gæti þetta verið upphafið að vaxtahækkanaferli?
„Já, það er alveg rétt,“ segir Ásgeir Jónsson.