Danskir fjölmiðlar greina frá því að Bruun hafi andast í gær.
Re-Sepp-Ten var samið í aðdraganda HM í Mexíkó 1986, en í textanum er að finna tilvitnanir í bæði sögur HC Andersen og danska landsliðið. Þannig er titill lagsins orðaleikur þar sem vísað er í uppskriftina að sigri og nafn þáverandi þjálfara landsliðsins, Sepp Piontek.
Bruun samdi lagið með þeim Jarl Friis-Mikkelsen og Henrik Bødtcher, en Bruun var einn framleiðandi. Í bakröddum var svo að finna Preben Elkjær og aðrar stjörnur danska landsliðsins á þeim tíma.
Danir slógu í gegn á HM í Mexíkó 1986, unnu alla leikina í riðlakeppninni þar sem þeir mættu Vestur-Þjóðverjum, Úrúgvæjum og Skotum. Muna margir eftir 6-1 sigri Dana á Úrúgvæjum þar sem Elkjær skoraði þrennu. Danir duttu þó úr fyrir Spánverjum í sextán liða úrslitum mótsins þegar þeir töpuðu 5-1.
Áður en til lagsins kom hafði Bruun starfað lengi sem tónlistarmaður og tónlistarframleiðandi og hafði samið fjölda vinsælla laga. Var hann meðal annars liðsmaður sveitanna Tøsedrengene og Ray-Dee-Ohh.
Bruun lætur eftir sig þrjú börn, þeirra á meðal dótturina Amalie, sem einnig er þekkt sem þungarokkstónlistarkonan Myrkur.