Selfyssingar komust yfir með marki Önnu Maríu Friðgeirsdóttur á 32. mínútu og staðan var 1-0 í hálfleik.
Á 52. mínútu jafnaði nýsjálenska landsliðskonan Betsy Hassett þegar hún rak smiðshöggið á laglega sókn.
Betsy fagnaði með samherjum sínum og Emmu Checker, leikmanni Selfoss, sem lenti óvænt í faðmlögum við glaðar Stjörnukonur. Henni var ekki skemmt og losaði sig frá Garðbæingum.
Markið og atvikið má sjá í spilaranum hér fyrir neðan, á 03:20.
Skömmu eftir að hafa lent í fagnaðarlátum Stjörnukvenna fékk Emma gult spjald fyrir mótmæli eftir að hafa ekki fengið vítaspyrnu sem hún vildi fá.
Emma gat þó leyft sér að brosa í leikslok því Selfoss vann 3-1 sigur. Unnur Dóra Bergsdóttir og Hólmfríður Magnúsdóttir skoruðu tvö mörk með þriggja mínútna millibili eftir rúman klukkutíma.
Selfoss er með fullt hús stiga og markatöluna 8-1 á toppi Pepsi Max-deildarinnar. Næsti leikur liðsins er gegn Þrótti í Laugardalnum á miðvikudaginn.

Pepsi Max deild kvenna er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Pepsi Max deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.