Ræktaður skógur var á hluta þess svæðis sem brann í Heiðmörk á þriðjudagskvöld í síðustu viku. Í fyrstu áætlaði slökkviliðið að rúmlega tveir ferkílómetrar lands hafi orðið eldinum að bráð, eða rúmlega tvö hundruð hektarar. Miðað við það hefði gróðureldurinn verið sá næst stærsti á Íslandi frá brunanum mikla á Mýrum í Borgarfirði í mars árið 2006 eins og Vísir sagði frá á miðvikudag.
Skógræktarfélag Reykjavíkur birti niðurstöður úr mælingum sínum á eldinum á fimmtudag en samkvæmt þeim brann 61h hektari við Hnífhól, milli Hjalladals og Löngubrekkna. Náttúrufræðistofnun Íslands hefur einnig mælt svæðið úr lofti og ættu niðurstöður hennar að liggja fyrir í þessari viku. Stofnunin vinnur nú enn fremur að mati á áhrifum eldsins á gróður, dýra- og skordýralíf.
Miðað við tölur Skógræktarinnar var eldurinn fyrir viku því þriðji stærsti gróðureldur á landinu síðustu fimmtán árin. Hann er á eftir eldi í mýrlendi á Fáskrúðarbakka á Snæfellsnesi þar sem 319 hektarar brunnu í maí árið 2015 og eldsins í mýrum og lyngheiði á Kross og Frakkanesi á Skarðsströnd þar sem 105 hektarar brunnu í apríl árið 2016.
Af þeim 61 hektara sem brann í Heiðmörk á þriðjudag var ræktaður skógur á 46 hekturum og náttúrulegt birki á 5,5 hekturum, samkvæmt mati Skógræktarfélagsins.
„Hluti svæðisins sem brann var skógi vaxinn og urðu sum trén illa úti. Tíminn mun leiða í ljós hve mörg þeirra ná sér aftur á strik og hve mörg deyja,“ sagði í tilkynningu félagsins í síðustu viku.