Í umfjöllun Vísis um mögulegar aðgerðir lögreglu vegna framleiðslu Íslendinga á myndum og myndskeiðum fyrir síðuna OnlyFans, kom fram að enn væri hægt að kaupa erótísk tímarit, eða klámblöð, í verslunum Pennans Eymundsson.
Þau mátti meðal annars nálgast á vefsíðu fyrirtækisins snemma í morgun en um kl. 9.30 höfðu þau verið fjarlægð úr vefversluninni.
Vísir sendi fyrirspurn á Pennann Eymundsson og spurði meðal annars hvers vegna blöðin hefðu verið tekin út af vefnum í morgun og hvort búið væri að taka ákvörðun um að hætta sölu þeirra.
„Við ætlum að taka þau úr sölu í bili, skoða málið og taka svo endanlega ákvörðun,“ svaraði Brynjar Halldórsson, vörustjóri tímarita og dagblaða.
Athugun lögreglu á þeirri starfsemi sem nú fer fram á OnlyFans grundvallast á 210. grein almennra hegningarlaga en þar stendur:
- Ef klám birtist á prenti, skal sá, sem ábyrgð ber á birtingu þess eftir prentlögum, sæta sektum eða fangelsi allt að 6 mánuðum.
- Sömu refsingu varðar það að búa til eða flytja inn í útbreiðsluskyni, selja, útbýta eða dreifa á annan hátt út klámritum, klámmyndum eða öðrum slíkum hlutum, eða hafa þá opinberlega til sýnis, svo og að efna til opinbers fyrirlestrar, eða leiks, sem er ósiðlegur á sama hátt. [Þegar slíkt efni sýnir börn á kynferðislegan eða klámfenginn hátt getur refsing þó orðið fangelsi allt að 2 árum].
- Það varðar ennfremur sömu refsingu, að láta af hendi við unglinga, yngri en 18 ára, klámrit, klámmyndir eða aðra slíka hluti.