„Þetta beinist ekki að mér. Þetta er klár stunga á samstarfsflokkinn. Hún er að tala við Sjallana. Það er bara þannig,“ segir Helga Vala í samtali við Vísi.
Fréttastofa ræddi við Svandísi eftir óvenju langan ríkisstjórnarfund sem haldinn var í morgun; þriggja tíma fundur sem fór í að ræða landamærin. Svandís var spurð út í samstöðu á þinginu í tengslum við nýja lagasetningu er varðar sóttvarnarráðstafanir.
„Ég hefði gjarnan viljað meiri samstöðu um það mál. En ég held að pólitískar vendingar í því máli ráðist líka að hluta til af því að við erum komin á kosningaár,“ sagði Svandís. Og bætti við: „Það eru komnir skruðningar í pólitíska umræðu sem eru umhugsunarefni vegna þess að jafnaði hefur það ekki verið þannig að baráttan við veiruna væri pólitískt bitbein.“
Frumvarpið miðjumoð vegna átaka innan ríkisstjórnar
Helga Vala segir þetta alveg rétt, aðgerðir sóttvarnaryfirvalda og heilbrigðisráðherra séu orðnar að pólitísku bitbeini en innan ríkisstjórnarinnar. „En milli Sjálfstæðiflokksins annars vegar og Vg hins vegar. Frumvarpið sem Svandís komst inn í þingið með var miðjumoð vegna átakanna innan ríkisstjórnarinnar.“
Helga Vala, sem á sæti í velferðarnefnd, segir það klárt mál að stórnarandstöðuflokkarnir allir hafi verið skýrir á því að fylgja ætti ráðleggingum sóttvarnarlæknis og mati hans á hvað eru hááhættusvæði. En ríkisstjórnin ætlaði að fara aðra leið segir Helga Vala; núna virðist sem þær Svandís og Katrín [Jakobsdóttir forsætisráðherra vilji vera að bakka.
Svandís sé að biðja Sjálfstæðisflokkinn að róa sig
„Já, ef marka má Katrínu og Svandísi eftir fund ríkisstjórnarinnar í morgun. Og fylgja Þórólfi sem hefur vitið í þessum málum. Það er okkar leið. Við fögnum því. “
Helga Vala segist ekki geta tekið ummæli Svandísar til sín eða stórnarandstöðunnar:
„Augljóslega er Svandís að biðja Sjálfstæðisflokkinn að róa sig í gagnrýninni á þessar nýjustu aðgerðir. Hún er að tala við samstarfsflokk sinn í ríkisstjórninni.“
Helga Vala segir að þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafi farið mikinn í umræðum um málið á þinginu. „Við vorum beðin um að takmarka umræðuna inni í þinginu af því að þetta þurfti að vinnast hratt. Það var einn þingmaður sem talaði fyrir hvern stjórnarandstöðuflokkanna en Sjálfstæðisflokkurinn þurfti þrjá, til að lýsa andstöðu við málið.
Þetta voru það Sigríður Á. Andersen, Birgir Ármannsson og Vilhjálmur Árnason.
„Og tveir ráðherrar sjálfstæðisflokksins mættu svo ekki til atkvæðagreiðslunnar,“ segir Helga Vala og telur það segja sína sögu.