Eins og sjá má á meðfylgjandi myndum var góð stemning hjá flestum, en það virtist sem það væru ekki allir að passa upp á tveggja metra regluna og tilmæli yfirvalda vegna heimsfaraldursins.

Þó að um helgina hafi birst fréttir um örmagna fólk, týnda einstaklinga og ofkælingarástand, virðist meirihlutinn í gær þó hafa verið vel búinn miðað við aðstæður. Hraunið er þó erfitt yfirferðar og lentu einhverjir í því að skórnir gáfu sig á leiðinni.

Ljósmyndarinn var þar fótgangandi eins og flestir viðstaddir, en þó rakst hann líka á hjólreiðafólk sem hafði komið á staðinn á vel útbúnum fjallareiðhjólum.

Fólk borðaði nesti við gosið og einhverjir grilluðu brauð og fleira á grillteinum.

Veðrið í gær var ekki frábært en í kringum gosið sjálft var auðvitað heitt og notalegt. Í dag er veður á svæðinu vont og þar sem einnig er hættuleg gasmengun á staðnum er svæðið lokað.

Gosið telst kannski lítið í samanburði við önnur eldgos hér á landi en þeir sem hafa heimsótt gosið eru samt flestir á því máli að þetta sé stórkostlegt sjónarspil móður náttúru.

Litadýrðin nýtur sín einstaklega vel þegar tekur að rökkva, svo margir velja að bera gosið augum um kvöld eða nótt.

Björgunarsveitarfólk hefur haft í nógu að snúast um helgina við gæslu á svæðinu. Tugir, ef ekki hundruðir einstaklinga hafa þurft á aðstoð að halda.

Hraunárnar flæða hundruði metra um Geldingadal.

Áhugasamir ættu vonandi að geta gengið að gosinu seinna í dag eða á morgun. Þangað til þarf fólk að láta streymi og ljósmyndir duga.

Um helgina birtust hér á Vísi myndaþættir eftir bæði Vilhelm Gunnarsson og Ragnar Axelsson ljósmyndara Vísis. Þær myndir má finna í fréttunum hér fyrir neðan.