„Innst inn í Geldingadal er eldgos hafið í litlum hól sem er þar og það rennur nú aðallega út í dalinn sjálfan og safnast fyrir þar. Þetta er ekki mikið gos og hægt að bera það saman við Fimmvörðuhálsinn, sérstaklega hvernig það byrjar. Þetta er eins og stendur afskaplega lítið,“ segir Halldór Björnsson, hópstjóri veðurs og loftlags hjá Veðurstofu Íslands sem flaug yfir gossvæðið með þyrlu Landhelgisgæslunnar í morgun.
Hann segir nú unnið að því að leggja mat á hraunflæðið og útbreiðslu hraunsins.
„Það fer í þennan dal og kemst ekkert í burtu þaðan í bili. Það er þetta lítið magn að er þó nokkuð í að það fari lengra en fari annað.“
Þá sé verið að klára að meta gosmökkinn, öskufall og leggja mat á gasmengun.
„Við vitum að mökkurinn er ekki mjög hár hann nær svona tæplega einum kílómetra í þriggja, fjögurra kílómetra fjarlægð.“
Umfang gossins í samræmi við spá
„Á meðan við vitum ekki hversu mikið gas gæti verið þarna þá er mjög óvarlegt að vera að vera að labba að þarna sérstaklega í lægðum vegna þess að gasið getur safnast saman í lægðum,“ segir Halldór. Best sé að fylgjast vel með tilmælum frá almannavörnum.
Hann segir að gosið sé í nokkuð góðu samræmi við spár vísindamanna um gos á Reykjanesskaga.
„Þarna vissum við að gæti komið upp gos. Menn voru auðvitað alls ekki vissir um hvort það myndi gerast, flestir gangar fara ekki upp á yfirborðið en síðan þegar hann fer upp á yfirborðið þá passar það vel að þetta er ekki stórt gos þar sem gangurinn var líka lítill.“