Guardian hefur eftir Boaz Lev, sem fer fyrir bólusetningarátakinu í Ísrael, að jafnvel minniháttar aukaverkanir hafi verið fátíðar meðal ungmenna. Meðal bólusettra voru börn með slímseigjusjúkdóm, sem hefur áhrif á lungun.
Bólusetningarnar voru ekki þáttur í rannsókn en Pfizer hefur hafið rannsókn á áhrifum bólusetninga hjá 12 til 15 ára og hyggur á aðra fyrir börn á aldrinum 5 til 11 ára. Þá hefur Oxford-háskóli tilkynnt að hann hyggist prófa AstraZeneca bóluefnið á börnum niður í 6 ára.
Niðurstaða er ekki að vænta fyrr en eftir einhverja mánuði.
Meira en helmingur Ísraelsmanna hefur fengið einn skammt af bóluefni og gert er ráð fyrir að um 60 prósent af íbúum landsins verði orðnir fullbólusettir innan nokkurra vikna. Það er það hlutfall sem vísindamenn hafa talað um sem mögulegan upphafspunkt hjarðónæmis.
Anthony Fauci, sóttvarnalæknir Bandaríkjanna, hefur hins vegar sagt að vegna nýrra og meira smitandi afbrigða SARS-CoV-2 muni hjarðónæmi ef til vill ekki nást fyrr en um 90 prósent samfélagsins eru orðin ónæm.
Þetta mun skapa vandamál fyrir ríki á borð við Ísrael, þar sem fjórðungur íbúa er yngri en 16 ára og verður ekki bólusettur að óbreyttu. Benjamin Netanyahu forsætisráðherra sagðist hins vegar gera ráð fyrir að bóluefni fyrir börn og ungmenni fengju samþykki í apríl eða maí.