Vitni að gjörningnum upp úr klukkan tólf að hádegi á laugardag lýsir því í samtali við fréttastofu þegar hjónin úr Garðabænum mættu á bensínstöðina. Þóra Margrét brá sér á snyrtinguna og þá hafði Bjarni eiginmaður hennar hraðar hendur.
Fjórir vinir þeirra hjóna biðu með Bjarna, vopnuð blómum og blöðrum, þegar Þóra Margrét kom af snyrtingunni. Gjörningurinn virtist koma henni í opna skjöldu en Þóra Margrét fagnar fimmtugsafmæli sínu þann 1. mars.
Blöðrurnar voru tvær, önnur merkt 5 og hin núll, til merkis um tímamótaaldur Þóru Margrétar. Hópurinn hló að uppákomunni áður en allir héldu út í bíl. Má telja líklegt að hópurinn hafi því næst haldið út úr bænum miðað við stemmninguna í hópnum en bensínstöðin er vinsælt stopp á leiðinni úr bænum.
Bjarni Benediktsson, sem varð fimmtugur í janúar í fyrra, var gestur Einkalífsins á Vísi í vikunni og ræddi þar meðal annars samband þeirra Þóru Margrétar.