„Við þurfum að gefa kjötið. Það er vandamálið. Við seljum allt okkar kjöt beint frá býli,“ segir Þórður Sveinsson, sauðfjárbóndi á Krossholtum á Barðaströnd, í þættinum Um land allt á Stöð 2.

Á Brjánslæk eru hjónin Halldóra Ingibjörg Ragnarsdóttir og Jóhann Pétur Ágústsson búin að byggja upp eigin kjötvinnslu með tilheyrandi græjum ásamt frystiklefa og reykhúsi. Þau selja beint frá býli undir vörumerkinu Brjánslækjarbúið.
„Auðvitað var hugsunin líka sú að þetta gæti verið vonandi svona liður í endurnýjun á bændum þannig að aðrir gætu komið inn í. En við gætum kannski starfað áfram á einhverjum hliðarvæng,“ segir Jóhann Pétur.

Kjötvinnslan á Brjánslæk gengur út á það að ná sem mestum verðmætum úr verðminnstu afurðunum, eins og kjöti af fullorðnum ám og vetrargömlum sauðum. Úr frampörtum og hryggjum vinna þau meðal annars bjúgu og kjötfars.
„Nýjasta gæluverkefnið er grafið ær-fillet úr hryggvöðvum af sauðum og ungum ám,“ segir Halldóra Ingibjörg. Matarhandverkið þeirra segir hún þó vera ær-jerky, kryddlegið og þurrkað ærkjöt.

Í fiskeldisstöðinni að Þverá nýta þau Sveinn Viðarsson og Kristín Ósk Matthíasdóttir volgt vatn úr borholum á staðnum til að ala bleikju upp í sláturstærð. Þau reyna að gera sem mest sjálf og selja afurðir beint frá býli, eins og reykta bleikju. Þau eru einnig í áhugaverðri vöruþróun og sýna okkur bleikjusnakk, unnið úr þurrkaðri og reyktri bleikju.
„Við erum að byrja á því núna að fara að fullvinna allt. Við tökum slógið og alla afskurði. Það verður allt hakkað niður. Þannig að þetta verður fullvinnslueldi,“ segir Sveinn.
Í þættinum Um land allt á Stöð 2 er því velt upp hvort gróskan á Barðaströnd geti leitt til þess að þar fari aftur að myndast þorp, eins og gerðist þegar hrefnuveiðar stóðu sem hæst. Hér má sjá sex mínútna myndskeið úr þættinum:
Hér má sjá frétt frá árinu 2014 um örlög þorpsins: