Maðurinn, sem er sjómaður á þrítugsaldri, var handtekinn sex klukkustundum síðar, þann 16. febrúar, löngu eftir að hann komst yfir landamærin og sagðist hann vilja hæli í Suður-Kóreu. Hann sagðist hafa forðast hermenn af ótta við að verða skotinn eða sendur aftur til Norður-Kóreu.
Maðurinn synti með austurströnd ríkjanna og komst hann yfir gaddavíra á ströndinni með því að skríða í gegnum frárennsli. Hann synti svo rúma þrjá kílómetra til viðbótar og fór þar í land, samkvæmt frétt Yonhap fréttaveitunnar, þar sem farið er yfir ferðalag mannsins.
Þá gekk hann rúma fimm kílómetra eftir vegi þar sem hermenn sáu hann á öryggismyndavélum. Þrátt fyrir það var hann ekki gómaður fyrr en þremur klukkustundum síðar.
Um þúsund manns flýja Norður-Kóreu á ári hverju en flestir fara til Kína. Það þykir mun auðveldara enda eru landamæri Norður- og Suður-Kóreu einhver víggirtustu landamæri heims.
Á meðan ferðalag mannsins stóð yfir misstu hermenn ítrekað af honum á öryggismyndavélum og urðu ekki varir við tvær viðvörunarbjöllur.
Einn hermaður sem átti að vakta kerfið var að gera breytingar á tölvukerfi og taldi hann viðvörunarbjöllurnar hafa hringt vegna þess. Annar var í símanum.
Þá leiddi rannsókn sem hafin var eftir að annar flóttamaður komst í gegnum frárennsli í ljós að herinn vissi ekki af frárennslinu sem maðurinn skreið í gegnum. Í rauninni komust forsvarsmenn hersins að því að alls þrjú slík rör væru á landamærunum, sem væru ekki skráð hjá hernum.
Herforingjaráð Suður-Kóreu segir að farið verði yfir það hvernig þetta gat gerst og vöktunarkerfi ríkisins á landamærunum verði bætt, samkvæmt frétt BBC.