Háskóladagurinn fer fram á laugardaginn milli kl 12 og 16 en hann verður alfarið á netinu að þessu sinni vegna ástandsins í samfélaginu.
Frá þessu segir í tilkynningu og segir að Háskóladagurinn hafi í hátt á annan áratug verið einn mikilvægasti vettvangur landsmanna við að kynna sér það háskólanám sem í boði verður.
Nýr vefur Háskóladagsins var nýlega opnaður þar sem lesa má um fjarfundina sem í boði verða. Munu áhugasamir þar geta spurt spurninga um námið og spjallað við fulltrúa háskólanna, nemendur og kennara.
Háskóladagurinn er árvisst samstarfsverkefni allra sjö háskóla landsins þar sem þeir kynna námsbrautir sínar fyrir verðandi háskólanemum. Háskóladagurinn var fyrst haldinn árið 2004 og verður nú haldinn í sautjánda sinn.