Ýmir Örn Gíslason fór mikinn í liði Rhein-Neckar Löwen í kvöld er Ljónin unnu nokkuð þægilegan sjö marka sigur á Tatabánya frá Ungverjalandi í kvöld. Ljónin voru sjö mörkum yfir í hálfleik, 20-13 og segja má að sigurinn hafi aldrei verið í hættu.
Ýmir Örn fór að venju mikinn í vörn heimamanna en hann skoraði einnig þrjú mörk í sigri kvöldsins. Lokatölur eins og áður sagði 37-30.
Ómar Ingi Magnússon fór á kostum í naumum útisigri Magdeburg gegn franska liðinu Montpellier. Leikurinn var í járnum frá upphafi til enda en fór það svo að Magdeburg vann tveggja marka sigur eftir að hafa verið einu marki yfir í hálfleik, lokatölur í Frakklandi 30-32.
Ómar Ingi skoraði tíu mörk í liði Magdeburg og geta liðsfélagar hans þakkað honum fyrir stigin tvö í kvöld. Um var að ræða efstu tvö lið riðilsins og frammistaða Ómars Inga því enn merkilegri. Magdeburg sem fyrr á toppi C-riðils, nú með tólf stig eða fjórum meira en Montpellier og CSKA Moskva sem eiga þó tvo leiki til góða.
Þá tapaði GOG, lið landsliðsmarkvarðarins Viktors Gísla Hallgrímssonar, naumlega í Makedóníu þar sem danska liðið heimsótti Eurofarm Pelister. lokatölur 32-31. Tapið þýðir að Pelister fer upp í annað sæti D-riðils með niu stig en GOG er í þriðja sætinu með átta stig og á leik til góða. Ýmir Örn og félagar hans í Löwen eru á toppi riðilsins með 13 stig.
