„Læknirinn segir að ég verði frá keppni í tvær til þrjár vikur,“ sagði Kristján Örn í stuttu spjalli við Handbolti.is í gær. Kristján, eða Donni eins og hann er alltaf kallaður, hefur leikið frábærlega með franska liðinu PAUC-Aix í vetur og er markahæsti leikmaður liðsins.
Í fjarveru Donna gerði lið hans sitt fyrsta jafntefli á leiktíðinni er það mætti Limoges á útivelli í gær, lokatölur 31-31. Fyrir leikinn hafði PAUX unnið níu leiki í röð eftir að hafa tapað gegn stórliði PSG í fyrstu umferð frönsku deildarinnar í haust.
PAUC er í þriðja sæti deildarinnar með 19 stig eftir 11 leiki, aðeins stigi á eftir Montpellier sem hefur leikið einum leik meira. PSG trónir svo á toppnum með 26 stig að loknum 13 leikjum.