Handbolti

Stjarnan valtaði yfir Hauka

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Úr leik Stjörnunnar og Hauka á síðustu leiktíð.
Úr leik Stjörnunnar og Hauka á síðustu leiktíð. Vísir/Bára

Stjarnan fór létt með Hauka í Olís-deild kvenna í kvöld, lokatölur 32-23.

Það var snemma ljóst hvoru megin sigurinn myndi enda í kvöld en Stjarnan skoraði fyrstu fjögur mörk leiksins. Haukar komust þó inn í leikinn og tókst að minnka muninn niður í tvö mörk nokkuð fljótt.

Heimastúlkur náðu þó fljótt vopnum sínum og þegar tíu mínútur voru til hálfleiks stungu þær einfaldlega af. Munurinn var orðinn níu mörk í hálfleik, 18-9. Einstefnan hélt áfram í síðari hálfleik og lauk leiknum með öruggum níu marka sigri Garðbæinga, lokatölur 32-23.

Helena Rut Örvarsdóttir skoraði sex mörk í liði Stjörnunnar og þá gerði Elísabet Gunnarsdóttir fimm. Tinna Húnbjörg Einarsdóttir varði 11 skot í markinu. Hjá Haukum voru þær Berta Rut Harðardóttir, Karen Helga Díönudóttir og Sara Odden markahæstar með fjögur mörk hvor.

Stjarnan jafnar Fram og KA/Þór að stigum með sigri kvöldsins en Fram á leik til góða.


Olísdeildirnar í handbolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×