Navalní var handtekinn strax við komuna frá Þýskalandi til Rússlands í gær. Hann hafði verið í Berlín frá því í september eftir að eitrað var fyrir honum með taugaeitrinu novichok.
Málið sagt pólitískt
Handtakan var vegna meints rofs á skilorði. Navalní fékk árið 2014 þriggja og hálfs árs skilorðsbundinn dóm fyrir fjárdrátt. Var honum gefið að sök að hafa dregið til sín 30 milljónir rúbla frá meðal annars snyrtivörufyrirtækinu Yves Rocher.
Navalní og ráðgjafar hans segja að málið hafi verið pólitísks eðlis, ekki lagalegs, og komst mannréttindadómstóll Evrópu að þeirri niðurstöðu árið 2017 að dómurinn hefði verið gerræðislegur og órökréttur.
Undir lok síðasta árs skipuðu yfirvöld Navalní að snúa aftur til Rússlands vegna skilorðsins og mæta á fund þann 29. desember, annars ætti hann á hættu að vera gert að afplána dóm sinn næst þegar hann færi til Rússlands. Dómurinn féll úr gildi 30. desember.
Mikilvægt að sýna samstöðu
Leiðtogar á Vesturlöndum hafa gagnrýnt handtökuna harðlega. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra segir afstöðu Íslands skýra.
„Það er algjör samstaða á milli okkar helstu bandalagsþjóða um að hann verðinn laus þegar í stað.“
Eystrasaltsríkin hafa lagt til að Evrópusambandið beiti Rússa refsiaðgerðum vegna málsins. „Það er afskaplega mikilvægt að vestræn ríki sýni algjöra samstöðu í þessu, sama hver niðurstaðan verður, hvernig brugðist verður við,“ segir Guðlaugur Þór.