Doncic vantaði eina stoðsendingu upp á að fullkomna þrennuna en hann skoraði 34 stig og tók 13 fráköst, auk þess að verja fjögur skot. Kristaps Porzingis sneri aftur eftir aðgerð vegna hnémeiðsla í október, og bætti við 16 stigum:
„Þegar þessir menn eru á vellinum á sama tíma þá breytir það öllu fyrir okkur,“ sagði Rick Carlisle, þjálfari Dallas.
Brooklyn vann 116-109 sigur á New York Knicks í grannaslagnum, þar sem Kevin Durant skoraði 26 stig. Brooklyn er nú með 7 sigra og 6 töp, fyrir komu Hardens.
Þremur leikjum frestað vegna faraldursins
Þremur leikjum var frestað vegna kórónuveirufaraldursins sem heldur áfram að setja stórt strik í reikninginn á tímabilinu. Um er að ræða leiki Washington Wizards og Utah Jazz, Boston Celtics og Orlando Magic, og Phoenix Suns og Atlanta Hawks.
Meistarar Los Angeles Lakers unnu sjöunda útileik sinn í röð þegar þeir rúlluðu yfir Oklahoma City Thunder, 128-99. LeBron James skoraði 26 stig. Lakers hafa byrjað tímabilið best allra og eru með 10 sigra en 3 töp.
Giannis Antetokounmpo skoraði þrefalda tvennu í tuttugasta sinn fyrir Milwaukee Bucks í 110-101 sigri á Detroit Pistons. Milwaukee var 27-13 yfir eftir fyrsta leikhluta eftir þristaregn Brook Lopez og leit ekki til baka eftir það.
Úrslit næturinnar:
- Charlotte 93 – 104 Dallas
- Detroit 101 – 110 Milwaukee
- New York 109 – 116 Brooklyn
- Minnesota 107 – 118 Memphis
- Oklahoma 99 – 128 LA Lakers
- LA Clippers 111 – 106 New Orleans
- Sacramento 126 – 132 Portland