Samkvæmt frétt Guardian funduðu heilbrigðisráðherra ESB í dag og lýstu einhverjir á fundinum áhyggjum yfir því að nýja afbrigðið færi huldu höfði, ef svo má að orði komast. Hún væri að dreifast meðal fólks, án þess að greinast.
Því væri mikilvægt að auka raðgreiningu veirusýna í Evrópu.
Jens Spahn, heilbrigðisráðherra Þýskalands, sagði að vegna afbrigðisins þyrfti fólk að draga enn frekar úr samkomum og takmarka samskipti við aðra.
Yfirvöld í Danmörku framlengdu sóttvarnaraðgerðir sínar í dag um þrjár vikur vegna afbrigðisins, sem hefur verið kallað B 1.1.7.. Minnst 208 hafa greinst smitaðir af því þar í landi.
Reuters hefur eftir Magnus Heunicke, heilbrigðisráðherra Danmerkur, að hann hafi miklar áhyggjur af dreifingu afbrigðisins. Í Danmörku mega fleiri en fimm ekki koma saman og börum, veitingahúsum og skólum hefur verið lokað.