Um er að ræða fyrsta úrskurð Hæstaréttar í máli er varðar þungunarrof síðan Donald Trump Bandaríkjaforseti skipaði Amy Coney Barrett dómara við réttinn. Þrír dómarar skiluðu séráliti.
Reglan sem um ræðir var sett af bandaríska matvæla- og lyfjaeftirlitinu (FDA) en dómarinn Theodore D. Chuang í Maryland komst að þeirri niðurstöðu að það að gera þá kröfu til kvenna að þær sæktu sjálfar lyfið á meðan Covid-19 faraldurinn geisaði væri óþarfa hindrun við að nýta sér stjórnarskrárvarinn rétt sinn til þungunarrofs.
Þar sem það voru landssamtök fæðinga- og kvensjúkdómalækna (ACOG) sem sóttu málið fyrir hönd skjólstæðinga sinna, úrskurðaði dómarinn að ákvörðun hans skyldi gilda á landsvísu, en félagar í ACOG telja 90 prósent allra starfandi sérfræðinga á þessu sviði.
Ósammála um meginatriði málsins
Í Bandaríkjunum er þungunarrof með lyfjagjöf heimilt fyrstu tíu vikur meðgöngu. Til að framkalla þungunarrof þarf kona fyrst að taka lyfið mifepristone og svo misoprostol 24 til 48 klukkustundum síðar. Misoprostol er hægt að nálgast í öllum lyfjaverslunum, einnig á netinu, en á meðan úrskurður Chuang var í gildi gátu konur einnig fengið mifepristone sent heim í stað þess að mæta á staðinn og fylla út pappíra.
John G. Roberts, forseti Hæstaréttar, sagði í dómsorðinu að málið snérist ekki um það hvort verið væri að skerða rétt kvenna heldur um það hvort það hefði verið rétt af alríkisdómara að grípa inn í ákvörðun stofnunar á borð við FDA, sem bæri pólitíska ábyrgð og hefði getu og sérfræðikunnáttu til að taka lýðheilsulegar ákvarðanir.
Minnihlutinn var hins vegar ósammála og sagði kröfuna um að konur sæktu sjálfar lyfin í heimsfaraldri taka þungunarrof út fyrir sviga og að um væri að ræða ónauðsynlegar og órökréttar byrðar á herðum kvenna sem veldu að iðka rétt sinn til að velja.