Breska konungshirðin greindi frá þessu í dag en breska ríkisútvarpið hefur eftir heimildarmanni sínum innan konungsfjölskyldunnar að Bretadrottning hafi með tilkynningunni viljað binda enda á vangaveltur um bólusetningu þeirra. Elísabet sem er 94 ára gömul og Filippus, 99 ára, voru bólusett af lækni í Windsor-kastala en fólk yfir áttræðu er meðal fyrstu hópanna til að hljóta bólusetningu í Bretlandi.
Hjónin hafa dvalið í Windsor-kastala á meðan útgöngubann gildir í Englandi. Ákváðu þau að dvelja þar og taka því rólega yfir jólahátíðina í stað þess að halda hefðbundnari fjölskyldusamkomur á sveitasetri konungsfjölskyldunnar í Sandringham.
Kórónaveirufaraldurinn hefur verið í miklum vexti í Bretlandi undanfarnar vikur. Ráðamenn lýstu yfir neyðarástandi í London í gær af ótta við að sjúkrahús í borginni ráði ekki við fjölgun frekari fjölgun innlagna í tengslum við kórónaveirufaraldurinn. Á rúmri viku hefur sjúklingum í London sem þurft hafa í öndunarvél fjölgað um 42 prósent og voru rúmlega sjö þúsund á sjúkrahúsi í borginni í gær vegna Covid-19.