Yfirvöld á Spáni segja að 769 manns hafi látið lífið af völdum Covid-19 sjúkdómsins síðastliðinn sólarhring, fleiri en nokkru sinni fyrr. Hins vegar hafi heldur hægt á fjölgun þeirra sem greindir hafa verið smitaðir af kórónuveiru.
Alls hafa 4.858 einstaklingar látið lífið af völdum farsóttarinnar á Spáni. Rúmlega 64.000 hafa greinst með kórónuveiruna. Það er 14 prósenta aukning frá því daginn áður en aukningin sólarhringinn á undan var 18 prósent og þar áður 20 prósent, sem þykir til marks um að farið sé að hægja á nýsmitum að sögn breska ríkisúvarpsins BBC.
„Við virðumst vera að nálgast langþráð hámark faraldursins,“ sagði Fernando Simón læknir og yfirmaður neyðarviðbragða í heilbrigðisgeiranum. Hann sagði að tölurnar væru skýr mörk um að farið væri að hægja á útbreiðslu veirunnar.
Spænski herinn hefur fengið það hlutverk að dauðhreinsa spítala og hjúkrunarheimili, þar sem 1.517 hafa látið lífið úr Covid-19.
Amnesty International samtökin bentu á það í dag að af þeim sem hafa greinst séu 9.444 heilbrigðisstarfsmenn. Þau gagnrýndu stjórnvöld harðlega fyrir lélegan aðbúnað starfsfólks sjúkrahúsa, sem skorti hlífðarfatnað.
„Stjórnvöld geta ekki lengur komið með afsakanir: Það er skylda þeirra að vernda þá sem vernda okkur og að gera það áður en það er um seinan,“ sagði í tilkynningu Amnesty.