Tíu ár eru í dag liðin frá því að eldgosið á Fimmvörðuhálsi hófst. Það stóð frá 20. mars 2010 til 13. apríl sama ár. Upphaflega bárust fregnir frá Lögreglunni á Hvolsvelli um eldgos og tilheyrandi öskufalli í eða við Eyjafjallajökul. Síðar kom í ljós að gosið var hraungos norðarlega í Fimmvörðuhálsi, rétt austan við Eyjafjallajökul.
Hraunrennslið úr gossprungunni myndaði um 200 metra hraunfoss, þann hæsta í heimi, og rann hraunið niður í gil í grennd við gossprunguna.
Samhæfingarstöð Almannavarna var virkjuð, fjöldahjálparstöðvar opnaðar og helstu hættusvæði rýmd. Byrjað var strax í upphafi að rýma bæi í Fljótshlíð og við Markarfljót. Fyrstu nóttina voru íbúar í Fljótshlíðinni og svæðunum vestan Markarfljóts sendir til Hvolsvallar og Hellu en aðrir fóru í Skálakot. Íbúar í Skógum fóru til Víkur í Mýrdal.
Vilhelm Gunnarsson, ljósmyndari Vísis, fylgdist með gosinu og má sjá brot af bestu myndum hans í albúminu að neðan.
Neyðarlínan sendi eftirfarandi SMS-skilaboð til íbúa: „Upplýsingar til íbúa, eldgos er hafið í Eyjafjallajökli norðaustan til, nánari upplýsingar síðar.“ Fjöldahjálparstöðvum Rauða krossins var lokað 21. mars en þó þurfti að rýma nokkra bæi.
Fyrsta tilkynning um gosið barst klukkan 23:58 frá Múlakoti og þá var TF-SIF, flugvél Landhelgisgæslunar, send af stað. Gosið hófst í um 0,5-1 km langri sprungu, norðarlega í Fimmvörðuhálsi en ekki undir sjálfum jökulinum. Hraunið myndaði háan foss er það rann niður í Hrunagil.
22. mars færðist gosið í aukana og mökkurinn varð að líkindum átta kílómetra hár. 31. mars opnaðist ný gossprunga um 200 m norðan við upphaflegu sprunguna. Við það minnkaði virknin í eldri sprungunni til muna og um viku síðar var virknin orðin að engu. Hraunið rann þá að mestu í Hvannárgil. Þegar sprungan opnaðist var nokkur fjöldi göngufólks ekki langt frá og var það flutt með þyrlum af hættusvæðinu.
Gosinu var lokið þann 13. apríl en strax daginn eftir hófst eldgos í toppgíg Eyjafjallajökuls.
Textinn að ofan er að mestu unnin úr Wikipedia-síðunni um eldgosið á Fimmvörðuhálsi.