Jarðskjálfti að stærð 4,2 varð klukkan 10:32 við Reykjanestá, um þrjá kílómetra norðvestur af Gunnuhver, að því er fram kemur í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands. Skjálftinn fannst m.a. á Reykjanesi og höfuðborgarsvæðinu, til að mynda á Veðurstofunni sjálfri.
Bryndís Ýr Gísladóttir náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands segir í samtali við Vísi að nokkrir minni eftirskjálftar hafi fylgt í kjölfarið. Enn sé verið að vinna í því að mæla stærð þeirra. Engin merki eru um gosóróa.
Líkt og áður segir fannst skjálftinn víða á suðvesturhorninu, líkt og færslur á samfélagsmiðlum nú í morgun sýna. Bryndís segir að nokkrir tugir tilkynninga um skjálftann hafi þegar borist Veðurstofunni.
Var þetta jarðskjálfti?
— Sæborg Ninja [hún/her] (@saeborgninja) March 18, 2020
Niðurstöður jarðskorpumælinga við fjallið Þorbjörn sýna að þensla sem veldur landrisi er hafin að nýju. Landrisið er nú hægara en það sem mældist í lok janúar en virðist eiga upptök á svipuðum slóðum. Líklegasta skýringin er að kvikusöfnun hafi tekið sig upp að nýju.
Bryndís segir erfitt að segja hvort skjálftinn í dag tengist landrisinu við Þorbjörn. Skjálftinn hafi átt upptök sín á öðru svæði og þá mælist áframhaldandi skjálftavirkni við Þorbjörn.
Jarðskjálfti að stærð 5,2 varð klukkan 10:26 nærri Grindavík í síðustu viku. Líkt og í dag varð skjálftans víða vart á suðvesturhorninu og fannst meðal annars greinilega á höfuðborgarsvæðinu. Bryndís segir að upptök skjálftans í dag séu töluvert langt frá upptökum stóra skjálftans í síðustu viku.
Fréttin hefur verið uppfærð.